Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu námsstyrks

Ár 2011, mánudagurinn 17. maí, er kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

 

I.

Kröfur aðila.

Með bréfi, sem barst mennta- og menningamálaráðuneytinu þann 11. febrúar sl., kærði A náms- og starfsráðgjafi f.h. skjólstæðings síns B (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir kærði), dags. 1. febrúar sl., um að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks fyrir haustönnina 2010 skv. lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum. Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir haustönnina 2010. Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

 

II.

Málsatvik.

Kærandinn, sem stundar nám við X, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir haustönnina 2010. Með bréfi kærða, dags.  1.  febrúar sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að kærandi hafi einungis tekið próf í 10 einingum á haustönninni en slíkt uppfylli ekki skilyrði a-liðar 2. gr. reglugerðar um námsstyrki um reglubundið nám á framhaldsskólastigi. Með bréfi, dags.  11. febrúar sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

 

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 11. febrúar sl. Með bréfi, dags. 17. febrúar sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 7. mars sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. mars sl., var umsögn kærða kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan umsagnarfrests.

 

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi hafi hætt í stærðfræði stuttu fyrir próf. Hann glími við dyslexíu og talnablindu og hafi átt í erfiðleikum með t.d. stærðfræði. Þegar hann hætti í stærðfræðinni áttaði hann sig ekki fyrr en of seint að hann hefði farið undir 12 eininga viðmið námsstyrkjanefndar varðandi jöfnunarstyrk. Á sama tíma höfðu foreldrar hans gengið í gegnum skilnað sem hafði mikil áhrif á kæranda persónulega og gerði það að verkum að einbeiting og líðan í skólanum var ekki eins og best var á kosið. Kærandi var einnig á námsbraut sem hentaði honum ekki og hefur nú skipt yfir á aðra braut sem lofar góðu.

 

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 1. febrúar sl., segir að skv. a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki sé það meginskilyrði sett fyrir úthlutun námsstyrkja að nemandi stundi reglubundið nám á framhaldsskólastigi. Í ákvæðinu segir að nemandi teljist stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga náms á önn. Að mati kærða uppfyllir kærandi ekki fyrrgreint skilyrði og því sé kærða ekki heimilt að veita jöfnunarstyrk fyrir haustönnina 2010.

Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

VI.

Rökstuðningur niðurstöður.

 

Gildissvið stjórnsýslulaga og kæruheimild.

 

Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um bætur eða styrk til einstaklings verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Kæra kæranda verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 5. gr. laga um námsstyrki skipar mennta- og menningamálaráðherra fimm manna nefnd, svokallaða námsstyrkjanefnd, sem skal sjá um úthlutun námsstyrkja. Skv. 6. gr. laganna skal nefndin leggja fyrir ráðherra tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna.

Námstyrkjanefnd er kærði í máli þessu. Samkvæmt auglýsingu nr. 3/2004 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer mennta- og menningamálaráðuneytið meðal annars með mál er varðar námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningamálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að nemendur, sem stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, með áorðnum breytingum, eigi rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Þá er jafnframt tilgreint að námsstyrkjanefnd sé heimilt að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi. Í 1. mgr. a-liðar 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið reglubundið nám skýrt svo að nemandi teljist stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla eða skóli staðfestir námsárangur með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi. Ef námi er ekki lokið vegna veikinda skuli skóli staðfesta móttöku á fullgildu læknisvottorði. Í 2. mgr. a-liðar 2. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að miða við sex einingar ef um lokaönn er að ræða og nemandi hefur lokið a.m.k. 12 einingum á undan genginni önn.

Niðurstaða.

Í máli liggur fyrir að kærandi gekk aðeins til prófs í 10 einingum á haustönn 2010. Röksemdir kæranda eru raktar hér að framan og er þar gerð grein fyrir þeim aðstæðum sem hann telur hafa leitt til þess að sá lágmarkseiningafjöldi sem kveðið er á um í reglugerð um námsstyrk, svo um reglubundið nám geti talist að ræða, var ekki uppfylltur. Synjaði námsstyrkjanefnd kæranda um styrk til jöfnunar á námskostnaði með vísan til a-liðar 2. gr. reglugerðar um námsstyrki. Í ákvæði a-liðar  2. gr. reglugerðarinnar er að finna afdráttarlausa skilgreiningu á því hvað reglubundið nám telst fela í sér og er þar átt við að nemandi hafi tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla, eða staðfesting skóla á námsárangri nemanda með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi. Samkvæmt ákvæðinu eru tvær undantekningar heimilaðar frá þessu skilyrði, þ.e. ef um staðfest veikindi með læknisvottorði eða lokaönn er að ræða. Sé lágmarkseiningafjölda ekki lokið af öðrum ástæðum en undantekningarheimildin kveður á um telst ekki um reglubundið nám að ræða. Í máli þessu liggur fyrir að hvorki er um lokaönn né veikindi kæranda, í skilningi ákvæðisins, að ræða. Verður að telja skilgreiningu á því hvað felst í reglubundnu námi, og undantekningar frá því, vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum með tilliti til jafnræðis nemanda gagnvart þeirri lágmarksnámsframvindu sem framangreind lög og reglugerðir gera áskilnað um svo til greiðslu námsstyrkja geti komið.

Ráðuneytið telur að afgreiðsla námsstyrkjanefndar hafi verið í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laga um námsstyrki, og að óhjákvæmilegt sé að byggja niðurstöðu á þeirri skilgreiningu á reglubundnu námi, sem þar er kveðið á um.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun um synjun styrks til jöfnunar á námskostnaði til B, dags. 1. febrúar 2011 vegna haustannar 2010 er staðfest.      


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum